GRÉTA KRISTÍN
Sviðshöfundur
Nýleg verkefni












Verk í vinnslu <3
//Höfundur & Flytjandi
Lokaverkefni á námskeiðinu Samsetningaraðferðir: Sviðsetning II - Leiðbeinandi: Rúnar Guðbrandsson
Samvinnuverkefni með Önnu Kein, Brynjari Valþórssyni, Heklu Elísabetu og Sigurjóni Bjarna.
// Í verkinu takast sviðslistarnemar á við óttann við yfirvofandi framtíðina í framliðnum síðnútímanum, fræðahrokann sinn, egóin sín og þversagnirnar.
Greyin reyna í aumkunarverðri örvæntingu að setja á svið einhverja FOKKING SNILLD sem getur komið þeim á kortið. En kortið er útskitið og ónýtt hvorteðer.
Svo eru þau heldur ekki saman í liði, því það er meira kúl að vera á móti. . .
Óvissulögmál
// Höfundur
Lokaverkefni á námskeiðinu Samsetningaraðferðir: Sviðsetning I
Leiðbeinandi: Rebekka A. Ingimundardóttir
Samvinnuverkefni með Andreu Vilhjálmsdóttur og Sigurjóni Bjarna Sigurjónssyni.
Við unnum með undur skammtafræðinnar og reyndum að kryfja existensíalískar ráðgátur hennar með notkun á rými, ljósum og hljóði.
Við fundum ljóðrænuna í lögmálum skammtafræðinnar, „particle-wave duality", ketti Schrödingers og „double-split experiement."
Við unnum þó mest með óvissulögmál Heisenbergs, en það felur í sér að það sé ekki hægt að vita samtímis staðsetningu eindar og hvert hún er að fara - því meira sem þú veist um annað, því meiri óvissa ríkir um hitt.
Við tókum okkur ákveðið skáldaleyfi með lögmálið og vörpuðum því yfir á tilvist fólks - hvernig við erum týnd, en leitum í sífellu að einhverju; öðru fólki, okkur sjálfum, tilganginum.
Og hvernig við erum í rauninni bara líkindaþéttleikafjöll - eins og skammtafræðin útskýrir - samansafn örsmárra einda sem haldast saman af ástæðum sem við verðum aldrei nógu stór til að skilja.










Changing Rooms
//Höfundur & Flytjandi
Lokaverkefni á námskeiðinu Óhefðbundin leikrými - Leiðbeinendur: Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Vala Ómarsdóttir
Samvinnuverkefni með Andreu Vilhjálmsdóttur, Árnýju Rún Árnadóttur, Enis Turan og Sigurði Andrean Sigurgeirssyni
// Site specific gangverk í elstu sundlaug Reykjavíkur, þar sem börn hafa lært að synda frá árinu 1930. Í verkinu fá áhorfendur tækifæri til þess að staldra við í millibilsástandi - á milli bernsku og fullorðinsára, á milli nektar og klæða - og spyrja hvort þeir hafi kannski skilið eitthvað eftir eða gleymt að taka eitthvað með á leiðinni að sjálfum sér. Áhorfendum er síðan boðið í sundtíma
Búningsklefarnir að sundlauginni hlutgera millibilsástand og við vorum innblásinn af virkni þeirra sem slíkum. Auk þess sóttum við fanga í eigin minningar frá unglingsárunum, reynslusögur unglinga í Austurbæjarskóla, Carl Jung og fræðikenningar um performatív kyngervi og heterotópíur.
Sýningunni er ætlað að höfða meira til undirmeðvitundar og skynjunar heldur en rökhugsunar. Áhorfendur ganga á milli innsetninga sem gera þeim hugsanlega kleift að heimsækja barnið í sjálfum sér, fyrirgefa, vera fyrirgefið og kannski læra að synda upp á nýtt.










TITUS ANDRONICUS [SIC] PARTY
//Höfundur & Flytjandi
Lokaverkefni á námskeiðinu Shakespeare afbyggður. Leiðbeinandi: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir
Samvinnuverkefni með Andreu Elínu, Jóhanni Kristófer, Maríu Dögg, Dominique Gyðu og Max Gold
// Í verkinu er tekist á við ofbeldi; í listum; á leiksviðinu, hvíta tjaldinu; á netheimum; og í raunveruleikanum.
Hversvegna sækir fólk sýningar og viðburði þar sem ofbeldi er til sýnis?
Hversvegna smellum við á linkinn og horfum á myndbönd með ofbeldi?
Afhverju kjósum við að horfa?
Áhorfendum er boðið til veislu þar sem vikulokum er fagnað. TGIF!
Um leið og gestirnir koma inn finna þeir þyngslin og spennuna í andrúmsloftinu. Keisarinn Satúrnínus tekur á móti þeim; klæddur í drag. Nærvera hans er óþægileg en hann er gestgjafinn og ákveður að allir eiga að fara í „Hver er maðurinn".
Drottningin Tamora setur þá miða á ennið á öllum áhorfendum; á öllum miðunum stendur „Lucius."
Leikurinn er þó aldrei spilaður, því næst þarf að skála, Lavinia hin raddlausa þarf líka að flytja erindi. Og svo þarf Lavinia litla að afklæðast fyrir framan vefmyndavél. Fljótlega leysist veislan upp í Konga-dans, með óléttri pinada drottningu sem áhorfendur mega reyna að slá úr súkkulaðiköku og borða eins og þá lystir.
Gestgjafarnir samþykkja ofbeldið, en munu gestirnir gera það líka?
















Fylgsni
//Leikstjóri
Örverk eftir Ölmu Mjöll Ólafsdóttur
Sýnt á Ungleik í október 2014
Nýja Sviðinu í Borgarleikhúsinu
Verkið fjallar um þrjá einstaklinga sem eru veikir á geði og lækninn sem sinnir þeim.
Læknirinn virðist þó vera sá sem er utangarðs því hann passar ekki inn í veruleika verksins.
Í sviðsetningunni var spilað með tengslin á milli raunveruleika og ímyndunar, heilbrigðis og geðveiki, sannleika og lygar. Áhorfendur samþykkja órana sem eiga sér stað á leiksviðinu og trúa á blekkinguna, en þegar út í raunveruleikann er komið þá eru órarnir ekki lengur ásættanlegir. . . Hvern þarf að lækna?
Video
Úrkynjaverur
// Höfundur & Flytjandi
Devised verk Leikhópsins Þykistu
Leikstjóri: Hannes Óli Ágústsson
Sýnt í Frúnni í Hamborg, Akureyri í júní 2012
Leikstjórapistill:
Við lifum í samfélagi skilgreininga. Það er sífellt verið að flokka okkur mannfólkið niður á bása. Konur eða karlar, vinstri eða hægri, feit eða mjó. Hverri skilgreiningu fylgja ákveðnar væntingar og viðmið sem við reynum sífellt að eltast við. Við eigum að passa inn í þann kassa sem okkur er úthlutað. Og það sem er líklegast hættulegast er að þessi flokkun er orðin okkur ómeðvituð, hugmyndafræði hennar er orðin okkar heimsmynd sem við lifum í gagnrýnislaust. En það sem við áttum okkur yfirleitt ekki á, dagsdaglega, er að það er einmitt þessi kassi og þessi sífellda flokkun manneskjunnar sem er eitt mesta kúgunartæki okkar samtíma. Í Úrkynjaverum reynum við að skoða aðeins þennan “kassa” sem við erum sífellt að smíða utan um okkur. Verkið er rannsókn á eðli skilgreiningarþarfar samfélags okkar og spyr spurningarinnar: Hversu raunveruleg eru þau hlutverk sem okkur eru áætluð? Einnig viljum við skyggnast á bak við tjöldin, inni í hverjum kassa leynast manneskjur með allan þann margbreytileika sem fylgir hverri og einni. Getur einhver fyrirfram ákveðið form hýst jafn margbreytilega veru? Með því að aðlaga okkur að kassanum, erum við þá ekki að tapa einhverju af okkur sjálfum? Þetta eru spurningar okkar. Hvort við svörum þeim svo vel sé veit ég ekki. Kannski eru engin svör, bara spurningar sem afhjúpa aðrar spurningar.




























Video
Og svo var bankað
// Leikstjóri
Verk í þremur þáttum eftir Vilhjálm B. Bragason og Leikhópinn Þykistu.
Sýnt í Deiglunni á Akureyri í apríl 2011
Fyrsta uppfærsla Leikhópsins Þykistu.


















Sjáumst eftir eina, tvær
//Höfundur & Leikstjóri
Einstaklingsverkefni á 2. ári í Listaháskóla Íslands
Leiðbeinendur: Una Þorleifsdóttir og Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Video